23.10.2008 | 23:42
ER FREKARI HÖRMUNGA AÐ VÆNTA?
Ég eins og svo margir aðrir skil ekki hvers vegna allt er farið úr böndunum í fjármálum heimsins. Eitt er þó nokkuð skírt í mínum huga, en það er hin gengdarlausa seðlaprentun Bandaríkjanna sem ég las einhverstaðar að næmi 2 billjónum á sólarhring.Hún hlýtur að setja allt á hvolf áður en langt um líður. Það þætti ekki góð hagfræði ef fólk færi að prenta peninga heima hjá sér núna á þessum síðustu og verstu, til að láta enda ná saman um mánaðarmótin? Slík prentun hefur verið kölluð peningafals og ekki vel séð af yfirvöldum, og seðlarnir einskis virði þar sem hver seðill á að vera endurgjald fyrir unna vinnu. En kannski er þetta allt í lagi, hvað veit ég, ekki er ég hagfræðimenntaður og telst til sauðsvarts almúgans og þar að auki sennilega bara meðalgreindur karlmannsbelgur, eða varla það. Kannski verður þjóðin núna þegar verulega sverfir að, móttækilegri fyrir Guðsorði og leitar sér hjálpar þar sem hjálpin bregst ekki. Þegar allt leikur í lindi að því er okkur virðist er eins og Guð og Guðsorð eigi ekki aðgang að þjóðinni. Kynni mín af Rúmeníu og því fólki sem þar býr við kröpp kjör hefur sýnt mér hve miklu opnari sú þjóð er fyrir Guði og Biblíunni en við höfum verið hérna á Íslandi. Það er ábyggilega ekki öfundsvert að vera stjórnmálamaður á þessum tíma, og bera ábyrgð á velferð þjóðarinnar. í þessum óförum öllum get ég ekki annað en verið nokkuð ánægður með hversu stjórnarandstaðan hefur fengið að koma að málum og hversu lítið skítkast stjórnin hefur fengið úr þeirri áttinni. Megi algóður Guð vera okkur náðugur og nálægur á þessum erfiðu tímum og gefa okkur vísdóm til að taka réttar ákvarðanir, stjórn og stjórnarandstöðu ráð út úr vandanum. Megum við sjá handleiðslu Guðs og þakka fyrir hans gjafir eins og þessa miklu síld sem hann hefur rekið inn á Breiðafjörðinn.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 23:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.